Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varpar því fram á Facebook síðu sinni í kvöld að Landsvirkjun geti orðið gjaldþrota eins og mörg önnur ríkisfyrirtæki eða stórfyrirtæki.

Þetta kemur sem innlegg í umræðuna um mögulega sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóða landsins eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, minntist á í ávarpi sínu til flokksmanna í Valhöll um helgina.

„Gefum okkur að Landsvirkjun verði gjaldþrota í sumar,“ segir Pétur á síðu sinni.

„Já, en það gerist ekki. Hún situr á auðugum orkuauðlindum þjóðarinnar og er þjóðargersemi og fjölskyldusilfur. Í stjórn sitja valinkunnar konur og karlar skipaðir af fjármálaráðherra. Þeir gera ekki slík mistök. Eigið fé er 206 milljarðar króna orðið til úr nánast engu.“

Pétur bætir þó við:

„Má ég kalla á minni ykkar: SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga fyrir þau ykkar sem yngri eruð) var metið jafntraust íslenska ríkinu. Fór á hausinn. OR (Orkuveita Reykjavíkur) fór sömuleiðis á hausinn. Kaupþing hf. sem var með AAA mat fór á hausinn (eflaust segja eftiráspekingarnir (þeir eru alltaf nokkrir), "já en ég vissi það".) Minni á ÍLS. Mest undrandi varð ég (og fleiri) þegar Sjóvétríkin liðuðust í sundur á viku eða Lehmann Brothers féllu. Það ómögulega gerist öðru hverju.“

Pétur minnir á að Landsvirkjun sé í rekstri og að rekstur hafi alltaf áhættu í för með sér.

„Svo Landsvirkjun getur farið á hausinn. Skuldir eru 375 milljarðar með ríkisábyrgð (ykkar, kæru vinir). Tapað eigið fé og skuldir gætu farið mest i 580 milljarða króna. Það er ekkert tilefni til að halda að Landvirkjun fari á hausinn í sumar. Ekkert. En áhættan er til staðar.“

Þetta hefur leitt af sér heilmiklar umræður á Facebook síðu Péturs, en þegar þetta er skrifað, um kl. 19:00, eru komin tæplega 70 ummæli við færsluna.

Sjá Facebook síðu Péturs.