Stjórn Straums fjárfestingabanka hefur ákveðið að Jakob Ásmundsson taki við starfi forstjóra bankans og var starfsfólki kynnt það í upphafi starfsdags.

Pétur Einarsson, sem gegnt hefur starfi forstjóra síðan 2011, hefur látið af störfum. Pétur hefur stjórnað árangursríku uppbyggingarstarfi Straums á liðnum misserum og er honum þakkað fyrir framlag sitt. Fyrrverandi forstjóri og stjórn bankans eru sammála um að umfjöllun er varðar lok viðskipta hans í Bretlandi kynni að skaða hagsmuni Straums. Því var ákveðið að bregðast við með framangreindum hætti.

Greiddi ekki skatta

Mál Péturs tengist því að bresk yfirvöld hafa bannað honum að sitja í stjórnum breskra fyrirtækja næstu fimm árum vegna skattaundanskota þar í landi. Pétur átti ráðgjafafyrirtæki í fluggeiranum. Fyrirtækið fór í þrot árið 2010. Bresk yfirvöld segja hann hafa tekið sér um 100 þúsund pund í arð út úr félaginu til að fjármagna eigin neyslu, eins og það er orðað, en látið hjá líða að greiða skatt. Þegar fyrirtækið fór í þrot nam skattaskuld félags Péturs 25 milljónum króna.

Pétur sagði í samtali við vb.is í gær fyrirtækjarekstur hans í Bretlandi hafa fengið dapurlegan endi.

Jakob tekur við

Jakob Ásmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Straums að undanförnu, er 38 ára að aldri, doktor í iðnaðarverkfræði frá Purdue háskóla í Bandaríkjunum. Hann réðst til Straums á árinu 2005 sem framkvæmdastjóri áhættustýringar. Jakob hefur gegnt ýmsum framkvæmdastjórastöðum hjá Straumi á liðnum átta árum.