Pétur Kristinn Guðmarsson, sem er einn ákærðu í stóra Kaupþingsmálinu, hefur hætt störfum hjá Arion banka. Pétur ákvað sjálfur að hætta í bankanum. Engin lög eða reglur hefðu komið í veg fyrir að hann héldi áfram í bankanum.

Í dómi héraðsdóms var Pétur dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Í dómnum segir um skilorðbindingu dóms Péturs, Birnis Sæs Björnssonar og Einar Pálma Sigmundssonar.

Af gögnum málsins verður ráðið að þegar ákærðu, Einar Pálmi, Birnir Sær og Pétur Kristinn, hófu störf í bankanum hafi starfsemi deildar eigin viðskipta fyrir allnokkru verið komin í það horf sem lýst var. Þá voru ákærðu, Birnir Sær og Pétur Kristinn, undirmenn er tóku við fyrirmælum frá öðrum varðandi störf sín. Þá er til þess að líta, að þrátt fyrir að hafa verið yfirmaður deildarinnar virðist staða ákærða Einars Pálma innan hennar hafa verið svipuð stöðu meðákærðu. Þá er langt síðan atburðir þeir urðu sem ákært er fyrir. Að öllu þessu virtu þykir mega ákveða að fresta fullnustu refsinga ákærðu eins og í dómsorði greinir.

Stuttlega  er rætt við Pétur Kristinn í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.