„Þetta fyrirtæki sem ég rak í Bretlandi fór í þrot í kjölfar fjármálahrunsins. Sátt við yfirvöld náðust um málalyktir. Í því fólst m.a. að mér væri ekki heimilt að vera í stjórn í félagi í Bretlandi í fimm ár. Við það samkomulag hef ég að sjálfsögðu staðið,“ segir Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka.

Eins og vb.is greindi frá í dag hefur Pétri verið meinað að sitja í stjórnum fyrirtækja eða stýra fyrirtæki í Bretlandi vegna vangoldinna skatta þar í landi. Pétur var framkvæmdastjóri breska ráðgjafafyrirtækisins Cbridge Limited, sem nú er gjaldþrota. Fyrirtækið sérhæfði sig í ráðgjöf til flugfélaga og fyrirtækja í flugrekstri og sá um sölusamninga. Pétur var eini starfsmaður fyrirtækisins og vann hjá því frá árinu 2005. Hann fór með fyrirtækið í gjaldþrotameðferð haustið 2009 og var það úrskurðað gjaldþrota í júní árið 2010.

Skuldaði 25 milljónir í skatta

Bresk skattayfirvöld segja Pétur hafi fengið rúmlega 100 þúsund pund hjá fyrirtækinu til að halda uppi lífsstíl sínum, eins og tekið er til orða í opinberum gögnum . Þetta gera um 19 milljónir íslenskra króna. Á sama tíma hafi fyrirtækinu láðst að greiða skatta. Þegar fyrirtækið var komið í þrot stóð skattaskuldin í rétt um 200 þúsund pundum, jafnvirði 25 milljóna íslenskra króna.

Pétur vill í samtali við vb.is ekki fara út í smáatriði málsins.

„Þetta mál varðar viðskipti sem af ýmsum ástæðum fengu dapurlegan endi,“ segir hann.