Grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn móralskur leiðtogi Gleðipinna, en félagið á og rekur fjölda veitingastaða, þar á meðal Aktu Taktu þar sem blaðamaður hitti hann fyrir ásamt Jóhannesi Ásbjörnssyni, Jóa, talsmanni og einum eigenda Gleðipinna. Pétur, eða Móralski eins og þeir félagar kalla hann, mun hefja störf næsta mánudag og er hans hlutverk að halda uppi góðum móral meðal starfsfólks Gleðipinna með því að heimsækja starfsfólk allra veitingastaða fyrirtækisins og spjalla við það yfir kaffibolla.

Það var Pétur sjálfur sem viðraði hugmyndina að þessu nýstefnulega stöðugildi, sem líklega er fyrsta sinnar tegundar hér á landi, við Jóa.

„Fyrir mörgum árum síðan plantaðist ákveðið fræ þegar ég var að vinna í Byko. Þá sagði yfirmaður minn hálfreiður við mig þegar ég var búinn að gera eitthvað af mér: „Veistu Pétur, ég væri fyrir löngu búinn að reka þig ef þú værir ekki svona góður fyrir móralinn!“

Í kjölfarið plantaðist fræið sem síðar varð að þessari hugmynd. Mig hefur lengi langað til þess að framkvæma þessa hugmynd og var því himinlifandi þegar Jói tók vel í þetta,“ segir Pétur og leggur áherslu á að Móralski sé ekki skyndilausn, líkt og t.d. þegar fenginn er skemmtikraftur inn á vinnustað í eitt tiltekið skipti í stuttan tíma til að létta lund starfsmanna.

Stekkur inn og „gaggar“ aðeins

„Ég og Pétur höfum í u.þ.b. eitt ár velt fyrir okkur hvernig við gætum framkvæmt þetta. En eftir að COVID-19 skall á gafst minni tími til þess að þróa þetta þar sem allt púður fór í að halda starfseminni á floti. Nú fer hins vegar að sjá til lands og þá fór boltinn að rúlla á nýjan leik,“ segir Jói.

Að hans sögn mun Pétur setja sig inn í stefnu og markmið Gleðipinna, og miðla til starfsmanna. Hann verði því eins og seigfljótandi sýróp sem flýtur um staðina og bindur þessar mörgu rekstrareiningar saman sem eina heild.

„Við viljum að Gleðipinnar sé eftirsóknarverður vinnustaður sem fólk er stolt af því að vinna hjá. Einn angi af því sem Móralski er að fara að gera er að taka stöðuna á fólkinu. Sjá hvernig því líður og spjalla við það um hitt og þetta. Hann getur svo miðlað skilaboðum um fyrirtækið frá okkur stjórnendum til starfsfólksins niður alla línuna og komið til baka með mikilvæg skilaboð frá starfsfólki inn á skrifstofu.“

Þarna sé því um að ræða nýjan og spennandi vinkil í mannauðsmálum. „Þó að þetta hafi kómískt yfirbragð þá erum við ekkert að grínast með þetta. Ég hef mikla trú á því að starfsánægja starfsfólks Gleðipinna muni aukast umtalsvert með þessu útspili,“ segir Jói. „Ég mæti ekki í búning eða með grínrödd, heldur er þetta meira hugsað sem nokkurs konar spjallmeðferð þar sem ég stekk inn og „gagga“ aðeins,“ segir Pétur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um ævintýralegt tap tæknirisa af Bitcoin framleiðslu á Íslandi.
  • Frekari umfjöllun um Málsvörn, nýja bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir Jóhannesson.
  • Umfjöllun um nýjan stafrænan hönnunar- og listamarkað.
  • Forsætisnefnd Alþingis hefur hafnað beiðni Viðskiptablaðsins um afhendingu á greinargerð um Lindarhvol.
  • Edda Blumenstein, nýr forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, er tekin tali.
  • Sagt er frá milljarða ágóði af uppbyggingu í Urriðaholti í Garðabæ sem rennur til góðgerðarmála.
  • Viðtal við Ásmund Tryggvason framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka um lágvaxtaumhverfið.
  • Óðinn fjallar um Orkuveitu Reykjavíkur.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað og Týr fjallar um bóluefnaskandalinn.
  • Ítarlegt sérblað um fasteignamarkaðinn fylgir einnig Viðskiptablaðinu.