Húsvíkingurinn og útgerðarmaðurinn Pétur Stefánsson keypti 29% hlut Norðursiglingar í Sjóböðum ehf., sem rekur GeoSea sjóböðin á Húsavíkurhöfða fyrir 155 milljónir króna. Þetta má lesa út úr nýjasta ársreikningi Norðursiglingar sem bókfærði 90,8 milljóna hagnað af sölunni.

Pétur er þar með orðinn næst stærsti hluthafi Sjóbaðanna á eftir fjárfestingarsjóðnum Norðurböð sem fer með 34,7% hlut. Þá eiga Jarðböðin á Mývatni 22% hlut í Sjóböðunum.

Eignir Sjóbaða voru bókfærðar á 806 milljónir króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 278 miljónir.

Hagnaðist um 57,4 milljónir

Sjóböð ehf. skiluðu 57,4 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 8,5 milljóna tap árið 2020. Velta Sjóbaðanna, sem opnuðu í september 2018, nam 277 milljónum sem er 77% aukning frá fyrra ári. Velta félagsins var um fjórðungi meiri en árið 2019, fyrsta heila rekstrarári félagsins.

GeoSea var fjórði vinsælasti staðurinn á Norðurlandi eystra meðal Íslendinga til að nýta ferðagjöf stjórnvalda en um 1.700 færslur hjá félaginu tengdust ferðagjöfinni í fyrra. Andvirði þeirra nam samtals 8 milljónum króna.

„Rekstur félagsins gekk vel á árinu 2021 þrátt fyrir þau áhrif sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.