*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 12. maí 2020 13:48

Pétur nýr forstjóri Reykjalundar

Eftir að hafa stýrt Hrafnistuheimilunum í 12 ár, hefur Pétur Magnússon tekið við stjórn endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS.

Ritstjórn
Reykjalundur er endurhæfingarmiðstöð Sambands íslenskra berklasjúklinga, sem Pétur Magnússon að neðan tekur nú við sem forstjóri hjá.
Aðsend mynd

Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS frá og með 1. júní næstkomandi. Pétur er lyfjafræðingur að mennt og  með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun.

Pétur hefur reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, en hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum síðastliðin 12 ár, sem sinna öldrunarþjónustu en hann hefur þar leitt umfangsmikla uppbyggingu Hrafnistuheimilanna. Jafnframt er hann sagður hafa átt frumkvæði að nýjungum og breytingum í þjónustu við aldraða.

Hann hefur auk þess reynslu af samskiptum við stjórnvöld og félagasamtök sem sagt er að muni reynast mikilvægt fyrir framtíðarþróun endurhæfingarstarfsemi á Reykjalundi.

Stórn Sjómannadagsráðs hefur falið þeim Sigurði Garðarssyni, framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs og Naustavarar, og Maríu Fjólu Harðardóttur framkvæmdastjóra heilbrigðissviðs Hrafnistu, að taka tímabundið við starfi Péturs og munu þau leiða áframhaldandi starfsemi, þróun og uppbyggingu Hrafnistuheimilanna sem eru alls átta að tölu á suðvesturhorni landsins.

Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga (SÍBS) og vinnur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Um þjónustuna gildir þjónustusamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjalundar og þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.

Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins er móðurfélag Hrafnistu, Naustavarar og Happdrættis DAS. Á vegum félagsins eru rekin átta hjúkrunarheimili Hrafnistu í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins.

Hrafnista er stærsta einstaka öldrunareining landsins, með um fjórðung hjúkrunarrýma á landsvísu þar sem íbúar eru um 800 auk þess sem um tvö hundruð einstaklingar sækja þangað þjónustu í dagdvöl. Starfsmenn eru ve á annað þúsund manns árið um kring. Auk íbúa og dagdvalarþega Hrafnistu rekur Naustavör um 250 leiguíbúðir í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi.