Pétur Þ. Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Skipta, móðurfélags Símans, Skjásins, Mílu, Þjónustufyrirtækisins Já og fleiri félaga. Hlutverk hans verður að leiða samskipti félagsins við fjölmiðla, markaðsaðila og fjárfesta á Íslandi og erlendis sem og innri samskipti félagsins. Hann mun taka sæti í framkvæmdastjórn Skipta og mun einnig starfa að stefnumótun félagsins í samstarfi við forstjóra Skipta, Brynjólf Bjarnason. Pétur kemur til starfa á næstu vikum. Pétur hefur undanfarin tvö ár gegnt starfi forstöðumanns kynningarmála Glitnis. Frá árinu 2000 til ársins 2005 starfaði hann sem viðskiptafulltrúi á Aðalræðisskrifstofu Íslands í New York. Hann lauk BA prófi í heimspeki við Háskóla Íslands og MBA prófi frá Fordham háskóla í New York með áherslu á Markaðsfræði og stjórnun og rekstur fjölmiðla. Brynjólfur Bjarnason forstjóri Skipta segir það mikinn styrk fyrir Skipti að fá Pétur til liðs við félagið: “Pétur hefur mikla reynslu af samskiptum, bæði innanlands og utan, og sú reynsla mun nýtast félaginu mjög vel í þeim verkefnum sem framundan eru. Skráning Skipta í OMX kauphöllina hefur í för með sér fjölmörg spennandi tækifæri fyrir félagið, bæði hér á Íslandi og erlendis. Við leggjum mikla áherslu á fagleg samskipti við fjárfesta, markaðsaðila og fjölmiðla og Pétur mun leiða þá vinnu.” Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta, upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Fasteignafélagið Jörfi, Já, Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, Trackwell og Radiomiðun. Erlend dótturfélög eru fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi, Business Phone, On-Waves í Luxemborg og upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.