Alþingismaðurinn Pétur Blöndal tilkynnti í kvöld að hann bjóði sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík sem haldið verður 24. nóvember. Hann mun óska eftir 2. sæti á listanum sem þýðir forystusæti í öðru hvoru kjördæminu í Reykjavík, en það ræðst af hlutkesti.

Í tilkynningu sem Pétur hefur sent fjölmiðlum segir hann m.a.:  „Ég býð mig aftur fram vegna þess að sjaldan hefur verið brýnna að taka með skynsemi og þekkingu á veigamiklum málum sem varða þjóð okkar miklu.“

Pétur er tryggingarstærðfræðingur að mennt. Hann er 68 ára gamall og hefur gegnt þingmennsku í 17 ár, eða frá árinu 1995. Hann greindist með krabbamein í blöðruhálsi fyrir þremur árum og glímir enn við sjúkdóminn, samkvæmt tilkynningunni.

Þingmennirnir Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa einnig gefið kost á sér í 2. sæti í prófkjörinu.