Pétur Þ. Óskarsson hefur verið ráðinn yfirmaður nýs samskiptasviðs Icelandair Group. Sviðið mun bera ábyrgð á uppbyggingu og innleiðingu á samskiptastefnu Icelandair og mun vinna náið með rekstrareiningum félagsins, að því er kemur fram í tilkynningu.

Pétur hefur undanfarið strað sem yfirmaður samskipta hjá Símanum, Framtakssjóði Íslands og Íslandsbanka. Hann var viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 2000-2005. Þar var hann meðal annars annar framkvæmdastjóra Iceland Naturally verkefnisins. Hann er með B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Fordham háskóla í New York.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningunni að vöxtur Icelandair Group hafi verið gríðarlegur og að í ár muni ríflega 4.000 starfsmenn vinna hjá félaginu. „Ekki síst vegna þess teljum við rétt nú að bæta við skipurit félagsins samskiptasviði sem mun meðal annars hafa það hlutverk að samræma samskiptastefnu allra dótturfélaga Icelandair Group samstæðunnar.

Ferðaþjónustan er jafnframt afar mikilvæg atvinnugrein í íslensku efnahagslífi og Icelandair Group hefur þar hlutverki að gegna. Pétur hefur mikla reynslu sem nýtist okkur vel í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan,“ segir hann.