Pétur Pétursson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Fíton. Hann tekur við af Þormóði Jónssyni sem verður stjórnarformaður Fítons ásamt öðrum störfum.

Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri Fíton
Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri Fíton
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Pétur situr jafnframt í framkvæmdaráði Kaaberhússins, en innan þess starfa auk Fítons 4 sérhæfð fyrirtæki í markaðsmálum og boðmiðlun. Það gerir auglýsendum kleift, hvort tveggja að fá alla markaðsþjónustu á einum stað, eða það besta á hverju sviði. Pétur starfaði áður sem framkvæmdastjóri tekjusviðs 365 miðla. Viðskiptablaðið greindi frá því í júlí að hann hafi hætt þar ásamt fleirum í kjölfar þess að framkvæmdastjórnin var lögð niður.

Fram kemur í tilkynningu frá Fíton að Pétur hafi víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og úr auglýsingageiranum. Áður en hann vann hjá 365 miðlum var hann framkvæmdastjóri vátrygginga- og fjármálaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar á árunum 2005 til 2007. Hann starfaði sem forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Íslandssíma og síðar Vodafone árin 1999 til 2005 og á auglýsingastofunni GSP almannatengslum þar á undan og sem frétta- og blaðamaður um 10 ára skeið. Pétur er með BA próf í stjórnmálasögu, auk þess að hafa sótt námskeið hérlendis og erlendis í stefnumótun og verkefnastjórnun.

Fíton flutti í Kaaberhúsið við Sæbraut fyrir ári en undir þaki þess starfa sem fyrr segir fimm sérhæfð markaðsfyrirtæki sem starfa náið saman. Saman mynda þau krafthús í boðmiðlun, hreyfimyndasmiðjan Miðstræti, birtinga- og rannsóknarfyrirtækið Auglýsingamiðlun, vefstofan Skapalón og Kansas sem er sérhæft í markaðsmálum á netinu. Hjá fyrirtækjunum starfa 70 manns.