Franski bílaframleiðandinn Peugeot íhugar nú að gera tilboð í Vauxhall og Opel, en vörumerkin eru í eigu General Motors.

Fjallað er um málið á vef BBC, en með yfirtöku gæti markaðshlutdeild Peugeot samsteypunnar farið upp í 16% í Evrópu.

Franska ríkið á um 14% í Peugeot, auk Peugeot fjölskyldunnar og kínverska fyrirtækisins Dongfeng Motor.

Fréttirnar hafa haft umtalsverð áhrif á gengi bréfa Peugeot, en markaðsvirði þeirra hækkaði um 4,2% í París í dag.

Talsmaður bílaframleiðandans staðfesti að félagið væri að kanna alla möguleika, en sagði jafnframt ekkert vera staðfest.