Franski bílaframleiðandinn Peugeot skilaði um fimm milljarða evra tapi í fyrra, en það samsvarar um 860 milljörðum íslenskra króna. Er þetta í fyrsta skipti í þrjú ár sem fyrirtækið skilar tapi og er staða nú svo slæm að rætt hefur verið um það að franska ríkið hlaupi undir bagga með fyrirtækinu með því að kaupa í því hlut .

Dregið hefur úr bílasölu hjá fyrirtækinu frá árinu á undan og segir í frétt Bloomberg að bifreiðaframleiðsludeildin sé því rekin með meira tapi en áður.

Það sem skýrir þó hina afleitu afkomu fyrirtækisins að stærstum hluta eru afskriftir eigna upp á um 4,7 milljarða evra. Í fyrra sagði Peugeot að markmiðið væri að skera rekstrarkostnað niður um einn milljarð evra, m.a. með því að loka einni verksmiðju í Frakklandi. Verkalýðsfélög þar í landi hafa hins vegar beitt þarlendum dómstólum gegn fyrirtækinu til að koma í veg fyrir lokunina. Þrátt fyrir það segist fyrirtækið hafa skorið niður rekstrarkostnað um 1,2 milljarða evra.