Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hafnar að mestu þeim aðferðum sem Íslandspóstur beitir við að meta alþjónustukostnað félagsins, sem fram koma í svokölluðum leiðréttingarfærslum. Um er að ræða færslur, sem færa kostnað af alþjónustu og samkeppnisrekstri yfir á einkaréttarstarfsemi Íslandspósts. Kemur þetta fram í úttekt PFS á aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts frá því í haust. Færslunum er ætlað að færa frá samkeppnisrekstri yfir á einkaréttarstarfsemi umframkostnað sem kvaðir um alþjónustu valda félaginu.

Þessar færslur námu 300 milljónum króna árið 2011, 202,5 milljónum árið 2010 og 213,5 milljónum króna árið 2009. Samtals er því um að ræða 716 milljónir króna. Þegar leiðréttingarfærslurnar eru inni í reikningunum er samtals 205,7 milljóna króna tap á einkaréttarstarfsemi Íslandspósts, en þegar færslurnar eru teknar út þá er 510,3 milljóna króna hagnaður af henni. Þetta þýðir líka að á sama tímabili er rekstur samkeppnisreksturs, innan og utan alþjónustu, verri sem nemur sömu fjárhæð.

Samkvæmt lögum verður að aðskilja einkaréttar- og samkeppnisrekstur Íslandspósts og tekjur af fyrrnefnda rekstrinum má ekki nota til að niðurgreiða hinn síðarnefnda.

Í úttektinni segir að aðferðir Íslandspósts standist ekki kröfur um að hlutlægum og gagnsæjum aðferðum sé beitt við útreikning og útdeilingu kostnaðar á einstaka rekstrarþætti og þjónustutegundir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .