*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 4. febrúar 2021 08:17

PFS láti undir­verð­lagningu ó­á­talda

Að mati SVÞ hefur Pósturinn stundað undirverðlagningu á innanlandsmarkaði um nokkurt skeið. Gjaldskráin standist ekki lög.

Jóhann Óli Eiðsson
Eva Björk Ægisdóttir

Það blasir við að umtalsverð undirverðlagning Íslandspósts (ÍSP), sem varað hefur um árabil, hefur leitt til verulegrar röskunar á samkeppnismörkuðum. Nú sé svo búið að einkafyrirtæki troði marvaða til að halda nefinu fyrir ofan vatnsyfirborðið sökum samkeppnishátta og eftirlitsleysis með markaðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) sem nýverið var sent samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu.

Nýverið fjallaði Viðskiptablaðið um stöðu flutningsfyrirtækja en smápakkar hafa horfið úr leiðakerfi þeirra undanfarið. Má þá breytingu rekja til breytinga á gjaldskrá Íslandspósts í ársbyrjun 2020 þar sem sama verð var sett á vöruflokka innan alþjónustunnar. Þýðir það að engin leið er fyrir félög til að keppa á verðum þegar kemur að sendingum undir 10 kílógrömmum. Breytingin þýddi á bilinu 13-37% verðlækkun gjaldskrárflokka.

Erindi SVÞ ber yfirskriftina „Meinbugir á stjórnsýslu póstmála“ en með því fylgir lögfræðileg álitsgerð um lagagrundvöll gjaldskrár Póstsins fyrir pakka innanlands. Fyrir liggur að árið 2018, samkvæmt yfirliti um bókhaldslegan aðskilnað félagsins, var afkoma alþjónustu innanlands neikvæð um 346 milljónir króna og árið 2019 versnaði hún, var neikvæð um 527 milljónir króna. Þrátt fyrir það var tekin ákvörðun um að lækka gjaldskrána í byrjun árs 2020.

Raunkostnaður og hæfilegur hagnaður

Lögum samkvæmt ber gjaldskrá alþjónustu að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Tapið á sendingum innanlands árin 2018-19 var sem fyrr segir ríflega 870 milljónir króna og má velta því fyrir sér hvernig það samræmist skilyrðum um raunkostnað og hæfilegan hagnað.

„Eftir sem áður tók [Pósturinn] ákvörðun um að lækka gjöld fyrir pakkasendingar frá og með 1. janúar 2020. Virðist augljóst að sú ákvörðun var til þess fallin að auka enn á tap af umræddri starfsemi. Engar upplýsingar hafa komið fram sem gefa tilefni til að ætla að rekstur ÍSP hafi tekið slíkum stakkaskiptum frá árinu 2019 að tekjur af pakkasendingum innanlands á árinu 2020 hafi staðið undir kostnaði af starfseminni auk hæfilegs hagnaðar,“ segir í álitsgerðinni og sú ályktun dregin að gjaldskráin hafi ekki staðist lög í fyrra, frekar en fyrri ár.

Í álitsgerðinni er rætt um stöðuskjal sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), stjórnvald það sem hefur eftirlit með póstmarkaði, birti í upphafi árs 2020. Þar kom fram að stofnunin hefði kallað eftir rökstuðningi Póstsins fyrir gjaldskrárbreytingum en við sama tímamark höfðu ný lög um póstþjónustu tekið gildi. Í rökstuðningi ÍSP kom fram að miðað hafi verið við breytingar á vísitölu neysluverðs meðal annars sökum þess að rauntölur úr nýju lagaumhverfi lægju ekki fyrir.

„PFS sá ekki ástæðu til að kalla eftir frekari skýringum frá ÍSP þótt stofnunin tæki fram að skýringar fyrirtækisins hefðu „að ósekju“ mátt vera skýrari, einkum að því er varðar þá ákvörðun að miða gjaldskrá fyrir pakkasendingar innan alþjónustu við [verð innan höfuðborgarsvæðisins],“ segir í minnisblaðinu.

Þá er einnig rakið að í erindi PFS hafi verið vísað til reglna samkeppnisréttarins og sú ályktun dregin af fyrirvörum PFS að stofnunin hafi „gert sér grein fyrir því að allar líkur væru á því að gjaldskráin væri hvorki í samræmi við ákvæði laga um póstþjónustu né ákvæði samkeppnislaga“. Réttast hafi hins vegar verið, að mati stofnunarinnar, að bíða með aðgerðir þar til félagið hefði lokið heilu rekstrarári í nýju umhverfi.

Brjóti að líkindum gegn EES-reglum

Í álitsgerðinni er einnig bent á að lög um póstþjónustu geymi ekki neinar undanþágur um skyldu alþjónustuveitanda til að bjóða þjónustu sína á verði raunkostnaðar að viðbættum hæfilegum hagnaði. Lögin segja að vísu einnig að skylt sé að hafa sama verð fyrir alþjónustu á landinu öllu en það var, sem fyrr segir, útfært með því að færa landið allt niður á verð höfuðborgarsvæðisins. Mögulegt hefði einnig verið að miða við meðalkostnað á landinu í stað þess að miða við lægsta verðið og ætla eigandanum, íslenska ríkinu, að borga mismuninn, árlegar 490 milljónir króna miðað við áætlanir Póstsins. Félagið taldi það hins vegar verðleggja sig út af stærsta markaðnum, það er höfuðborgarsvæðinu.

„Að mati PFS er hins vegar „erfitt að samþætta þá reglu að gjaldskrár innan alþjónustu eigi að byggja á raunkostnaði og hæfilegri álagningu og þeirri reglu laganna að gjaldskrá innan alþjónustu eigi að vera sú sama um land allt.“ […] Með öðrum orðum þá er það afstaða PFS að ÍSP sé ekki skylt að fara eftir skýrum fyrirmælum [laga um póstþjónustu]. Þetta sé nauðsynlegt vegna samkeppnisstöðu ÍSP á höfuðborgarsvæðinu. Íslenska ríkið eigi hins vegar að bera tapið, að því er virðist vegna byggðasjónarmiða,“ segir í álitsgerðinni.

Sú ályktun er dregin að slíkt eigi sér ekki stoð í lögum um póstþjónustu. Því til viðbótar raski ákvörðunin samkeppni með alvarlegum hætti, „að líkindum í brýnni andstöðu við ákvæði samkeppnislaga og reglur EES um ríkisstyrki.“

Vekur upp spurningar um hæfi PFS

Í minnisblaðinu er athygli ráðuneytisins einnig vakin á því að pottur kunni að hafa verið brotinn í eftirliti PFS með störfum hins opinbera hlutafélags. Hér má geta þess að ekki er langt liðið frá því að ráðuneytið sjálft komst að þeirri niðurstöðu að eftirlit PFS hefði ekki verið í samræmi við texta eldri laga um póstþjónustu.

„Þegar horft er til þess að umtalsvert tap hafði verið á [pakkasendingum innanlands árin 2018 og 2019] verður að ætla að veruleg gjaldskrárlækkun hefði átt að vekja spurningar af hálfu eftirlitsaðilans. […] PFS var fyllilega upplýst um afkomu af starfseminni [umrædd ár]. Í því ljósi verður að telja að enn ríkari ástæða en ella hafi verið til að kalla eftir ítarlegum rökstuðningi og gögnum frá ÍSP,“ segir í minnisblaðinu.

Í bréfi SVÞ er því enn frekar velt upp hvaða áhrif eftirlitsleysi PFS kunni að hafa á hæfi stofnunarinnar til að sinna hlutverki sínu til frambúðar. Er þeirri spurningu velt upp hvort stofnunin sé í síðari málum „að taka afstöðu til fyrri ákvarðana sinna, aðgerða eða athafnaleysis“ og þrjár eldri ákvarðanir nefndar til sögunnar þar sem PFS „gæti virst hafa mikla hagsmuni af niðurstöðum þeirra“.

„Við þessar aðstæður er veruleg hætta á að stofnunin leiti niðurstöðu sem er stofnuninni sjálfri hagfelld, í stað þess að horfa eingöngu til staðreynda máls og þeirra ákvæða laga og reglna sem við eiga. Þegar horft er til þess að PFS hefur endurtekið, og til fjölda ára, ekki sinnt lögbundnu eftirliti með gjaldskrá Íslandspósts verður að telja aðstæður slíkar að efni séu til að draga óhlutdrægni stofnunarinnar í efa við síðari meðferð mála er lúta að fyrirtækinu,“ segir í bréfinu og gerð krafa um að tryggt sé að eftirlitsaðilinn sinni starfi sínu sem skyldi.

Í öðrum óspurðum af Íslandspósti herma heimildir blaðsins að stjórn félagsins hafi undanfarið fundað oftar en vanalegt er. Þá séu málefni félagsins til skoðunar bæði hjá handhafa hlutabréfsins, það er fjármálaráðherra, og hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur einnig fundað með félaginu, eftirlitsaðilum og keppinautum.

Venjubundið er að ársfundur félagsins fari fram síðari hluta febrúar en undanfarin ár hefur hann átt það til að frestast. Óvíst er hvort svo verði einnig í ár.

Stikkorð: Íslandspóstur