*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 30. maí 2019 13:09

PFS réttir ráðherra Svarta-Pétur

Áhöld eru uppi um það hvort ákvörðun PFS um að veita Póstinum 1,5 milljarð standist lög.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) féllst á hluta umsóknar Íslandspósts ohf. (ÍSP) úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Lögmaður telur afgreiðslu PFS ekki vera í samræmi við lög um póstþjónustu. Verði ákvörðun PFS ekki hnekkt mun upphæðin, 1.463 milljónir króna, að öllum líkindum lenda á ríkissjóði.

Jöfnunarsjóði alþjónustu er ætlað að bæta alþjónustuveitanda tap af óarðbærum svæðum. ÍSP sendi inn umsókn um úthlutun úr sjóðnum síðasta haust en sú var afturvirk og tók til áranna 2013-17. Alls var sótt um rúma 2,6 milljarða króna. Hluta umsóknarinnar var vísað frá af hálfu PFS þar sem stofnunin taldi Póstinn þegar hafa fengið þá þætti bætta. Eftir stóð það álitaefni hvort ÍSP ætti að fá bætt tap af erlendum sendingum.

Í máli ÍSP hefur komið fram að umrætt tap megi rekja til óhagstæðra endastöðvasamninga Alþjóðapóstsambandsins. Stærstan þátt þess megi rekja til svokallaðra Kínasendinga. PFS féllst á að tapið myndi falla undir alþjónustubyrði og sló því föstu að tapið næði til landsins alls „enda [væri] hér um „tekjuvandamál“ að ræða en ekki kostnaðar.

Júridískur utanvegaakstur

Samkvæmt reglugerð um alþjónustu ber umsækjanda úr sjóðnum að senda inn umsókn fyrir 1. september og skal umsóknin ná til næsta árs. Hið sama segir í lögum um póstþjónustu. Líkt og áður segir var umsókn Póstsins hins vegar afturvirk. Engu að síður tók PFS umsóknina til efnismeðferðar og vísar í því samhengi á tólf ára gamlan úrskurð úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála vegna umsóknar Símans um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir fjarskipti. Þar benti nefndin á að í fjarskiptalögum segir að umsókn skuli „að jafnaði“ vera framvirk.

„Öfugt við fjarskiptalögin, sem hafa þennan fyrirvara „að jafnaði“, þá er ekkert slíkt í lögunum um póstþjónustu. PFS er því í júrídískum utanvegarakstri sem eðli málsins samkvæmt leiðir ekki á neinn áfangastað nema út í móa. Ákvörðunin er eins röng og ólögmæt og hugsast getur og það er litlum vafa undirorpið að hún verður ógilt ef einhver krefst þess,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Félags atvinnurekenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandspóstur