Fyrr í sumar komst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði gerst brotlegur við fjölmiðlalög með því að beina viðskiptum Sjónvarps Símans að Mílu, sem er dótturfélag Símans, en vera ekki á öllum netum.

Í október árið 2015 hætti Síminn að reka áskriftarstöð, sem þá hét Skjár Einn en heitir nú Sjónvarp Símans. Stöðin var gerð að frístöð og dreift um allt land. Svokallað ólínulegt myndefni á vegum Símans, það er sjónvarpsefni sem hægt er að horfa á hvenær sem er, varð við það einungis aðgengilegt á myndlykli Símans, en ekki t.d. á lykli Vodafone. Samkvæmt ákvörðun PFS þurftu þar með þeir sem vildu kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans, að vera með myndlykil frá Símanum yfir þau net sem Síminn kaupir þjónustu af. Þar af leiðandi hafi áskrift að efninu eingöngu verið í boði yfir net Mílu og annarra neta á Íslandi sem Símasamstæðan hefur aðgang að. Net Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) hefur þar til nú í ágúst verið undantekningin frá þeirri reglu, að Síminn dreifi yfir öll net á Íslandi. GR og Sýn ehf., sem er eigandi Vodafone, kvörtuðu til PFS vegna ofangreindra atriða og var Síminn sektaður um 9 milljónir króna vegna meints brots.

„Að okkar mati hefur  PFS bitið svolítið í sig og hefur meðal annars skrifað í úrskurðum sínum, að hlutverk stofnunarinnar sé að minnka markaðshlutdeild Símasamstæðunnar. Þetta hlutverk kemur hvergi fram í lögum og er því ansi furðulegt að okkar mati að þeir telji þetta vera eitt af hlutverkum sínum. Eins sérstakt og það er þá er PFS  í rauninni með þessu að vinna að því að flytja viðskiptavini á milli fyrirtækja í þágu hluthafahóps samkeppnisaðila okkar á kostnað hluthafa Símans.

Ef þetta væri að eiga sér stað árið 1998 þegar Síminn var ríkisfyrirtæki og nánast með einokunarstöðu á markaðnum, þá myndi maður hafa samúð með að þetta væri eitt af hlutverkum þeirra. En núna er árið 2018 og við erum samkvæmt PFS þriðja stærsta farsímafyrirtæki á Íslandi. Þeir telja sig þrátt fyrir það hafa því hlutverki að gegna að minnka hlutdeild okkar. Þeir hafa meðal annars hrósað sjálfum sér í umsögn, þar sem þeir lögðust gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að heimila Símanum að sameiga Símann og Skjáinn, fyrir það að hafa náð góðum árangri í að minnka okkur á vissum sviðum en að þeir ættu þó ýmislegt eftir vangert á öðrum sviðum fjarskipta í að gera hlut okkar rýrari.

Af þessum ástæðum settu skráningaraðilar inn varnaðarorð til fjárfesta í skráningarlýsingu Símans, þegar við fórum á markað 2015. Viðvörunin snerist um að Síminn lyti eftirliti stofnunar sem hefði tekið upp hjá sér upp fyrrgreinda afstöðu, þótt við séum ekki með ráðandi stöðu eins og var áður, en að samkeppnin sé þvert á móti svo eitilhörð sem raun ber vitni. Þessi úrskurður frá því í sumar kom því ekki á óvart í ljósi fyrrnefnds ásetnings PFS.

Það er ein setning úr fjölmiðlalögum sem þeir nota til þess að rökstyðja niðurstöðu sína, en þeir sem skrifuðu þessi fjölmiðlalög árið 2011 kannast ekki við að túlka skuli þessa setningu laganna á sama hátt og PFS gerði. Samkvæmt PFS virka lögin þannig að ef við búum til efni eða kaupum efni, þá megum við ekki sýna það með ólínulegum hætti, nema afhenda sama efnið samstundis til keppinauta okkar án nokkurrar áhættutöku af þeirra hálfu. Okkur þykir þetta því stórmerkileg túlkun og munum fara með þetta mál fyrir dómstóla og teljum að þetta muni aldrei standast skoðun. Kaldhæðnin í málinu er jafnframt, að PFS lýsir hinu meinta broti í mörg hundruð síðna úrskurði sínum þannig, að það framferði á fullkomlega við tvo aðra keppinauta Símans. PFS hefur ekki sýnt neina tilburði til að skakka þann leik eða beita sömu túlkun gagnvart öðrum.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar fyrir löngu sett lögbann á Vodafone fyrir einmitt það háttalag sem PFS vill koma í kring. Það er, að höfundarvarið efni Símans verði samstundis tekið upp af keppinautum og miðlað af þeirra hálfu sem sjónvarpsefni í hagnaðarskyni. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti lögbann sýslumanns á Vodafone árið 2016. Hugmyndafræði PFS um að jafnan skuli dæma Símanum í óhag hafði greinilega ekki borist þessum óháðu úrskurðar aðilum í tæka tíð og því reynir PFS að grípa inn í leikinn í ár.

Hlutdrægni PFS gegn okkur kristallast vel í þessu máli. Símasamstæðan er hins vegar fjárhagslega sterk og nýtur trausts meðal neytenda. Út frá okkar sjónarhóli er því ekki ástæða til að dramatisera stöðuna. Okkar helstu áhyggjur af því, að dómarinn sé svo vilhallur sem raun ber vitni, eru því minnst okkar sjálfra vegna. Þeir sem tapa á þessari hugmyndafræði PFS eru fyrst og fremst almenningur á Íslandi, vegna fjölmargra skekkja sem skapast á markaði," segir Orri.

Keppinautar „dýfa" sér

„Slagsíða PFS framkallar til dæmis alls konar skrýtna hegðun í umhverfinu, það sem við köllum á fótboltamáli dýfur. Þannig verja sumir keppinauta okkar miklum tíma í það að dýfa sér fyrir hinn vilhalla dómara, PFS, og krefjast til dæmis himinhárra bóta fyrir það að við séum ekki að afhenda þeim okkar fjárfestingu á silfurfati. Þegar rætt er við áhugafólk um fjölmiðla og lög sem um þá gilda, svo sem menntayfirvöld, klóra sér flestir í hausnum yfir því að PFS ákveði að fæla aðila eins og okkur frá því að leggja út í miklar fjárfestingar og áhættu, við að framleiða hágæða íslenskt sjónvarpsefni og bæta íslenskt sjónvarpsumhverfi almennt. Við erum meðal annars að keppa við sum af stærstu fyrirtækjum í heimi, s.s. Netflix, Apple og Amazon, auk innlendra aðila eins og RÚV, sem fær margra milljarða forgjöf og er geysisterkt á auglýsingamarkaði.

Þá er Vodafone með einkasamning við RÚV um dreifingu í lofti og er með yfirburðastöðu í sjónvarpsdreifingu, þ.m.t. IPTV þjónustu, auk þess að vera markaðsráðandi í áskriftarsjónvarpi vegna Stöðvar 2 og fleiri rása. Þetta eru okkar keppinautar en við erum þrátt fyrir það sá aðili sem minnka á markaðshlutdeildina hjá. Lagalega og hugmyndafræðilega þykir okkur þetta því stórfurðuleg nálgun hjá PFS og teljum að þetta muni ekki ganga til lengdar," segir Orri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .