Eigendur glugga- og glerfyrirtækisins PGV í Hafnarfirði hafa keypt Glerborg, eitt elsta og rótgrónasta glerframleiðslufyrirtæki landsins. Dótturfélag Glerborgar, Gler og speglar – Speglabúðin, fylgir með í kaupunum. Saga Capital Fjárfestingarbanki hafði milligöngu um eigendaskiptin.

Í tilkynningu vegna sameiningarinnar segir að sameinað fyrirtæki Glerborgar og PGV mun starfa undir merkjum Glerborgar og verða starfsmenn fyrirtækisins um 45 eftir sameiningu. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsmannahaldi vegna sameiningarinnar. Þorsteinn Jóhannesson, núverandi framkvæmdastjóri PGV verður framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis.

Glerborg, sem var að stærstum hluta í eigu Antons Bjarnasonar og Hafsteins Þórðarsonar, hefur sérhæft sig í framleiðslu á glerrúðum og sérframleiðslu úr gleri eins og til dæmis skurði, slípun og sandblæstri. PGV var stofnað árið 2002 og er stærsta fyrirtæki landsins í framleiðslu á viðhaldsfríum gluggum og hurðum úr harðplastefni. Eigendur PGV eru þeir Þorsteinn Jóhannesson, Andrew Gosling, Guðmundur Sigþórsson, Kjartan Valdimarsson og Þóra Grímsdóttir.

Stefna sameinaðs fyrirtækis er að verða stærstir á markaði í framleiðslu og sölu á gleri, gluggum, hurðum, sólstofum, svalalokunum og tengdum vörum. Með auknu vöruúrvali á næsta ári verður fyrirtækið með heildarlausnir á öllu sem viðkemur gleri og gluggum bæði innan dyra og utan. Meðal þess sem bætt verður við af vörutegundum eru timbur-álgluggar, innihurðir og glerveggir.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins verða til að byrja með í Glerborg í Hafnarfirði og þar verður allt gler framleitt. Framleiðsla á PVC gluggum verður á Akranesi og þar er einnig söluskrifstofa. Söluskrifstofa er á Húsavík og stefnt er að því að fjölga þeim víðar um land á næsta ári. Í lok næsta árs er áætlað að öll framleiðsla verði komin undir eitt þak en staðsetning er ekki ennþá ákveðin, segir í tilkynningunni.