Vegna skyldleika nafnsins PharmaNor við nafn á fyrirtæki í svipuðum rekstri erlendis hefur verið ákveðið að starfsemi PharmaNor verði framvegis rekin undir nafninu Vistor. Nafnið er samsett úr íslenska orðinu vist og alþjóðlega viðskeytinu -or. Það skírskotar þannig til þess hluta rekstrarins að hýsa starfsemi alþjóðlegra framleiðenda og dreifa vörum þeirra um leið og á þarf að halda. Nýtt kjörorð félagsins er: Bakhjarl fyrir betri líðan.

Saga Vistor hófst árið 1956 með stofnun lyfjafyrirtækisins Pharmaco. Í kjölfar útrásar félagsins var því skipt upp árið 2002 og fékk innlendi hlutinn nafnið PharmaNor. "Vistor er leiðandi fyrirtæki í heildsölu og dreifingu lyfja, lækningatækja og hjúkrunarbúnaðar til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og lyfjaverslana," segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Vistor er fulltrúi margra af stærstu frumlyfjafyrirtækjum veraldar hér á Íslandi svo og helstu framleiðenda lækningatækja og hjúkrunarbúnaðar, og tekur þannig þátt í þróun nýrra lyfja og framförum í læknavísindum. Um leið er Íslendingum tryggður aðgangur að helstu nýjungum á alþjóðlegum lyfja- og heilbrigðismarkaði.

Hjá Vistor starfa 110 manns og eru höfuðstöðvar og dreifingarmiðstöð fyrirtækisins að Hörgatúni 2 í Garðabæ. Velta félagsins á síðasta ári nam um 4,7 milljörðum króna.

Forstjóri Vistor er Hreggviður Jónsson.