Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Edmund Phelps, tekur undir með nýrri ríkisstjórn Íslands og segir að óráð sé að sækja um Evrópusambandsaðild fyrir Ísland eins og sakir standa. Er þetta haft eftir honum í frétt Bloomberg.

Phelps telur ekki útilokað að tilraunin með ESB og evruna muni reynast mislukkuð. Phelps telur að Íslendingar ættu að skoða að fastgengisstefnu fyrir krónuna, t.d. með því að festa gengið við gengi Bandaríkjadollars.

„Ég trúi því ekki að nokkrum sé alvara með aðild að ESB um þessar mundir,“ sagði Phelps. „Það er eins og að segja: Þetta er fallegt hús -- það stendur í björtu báli í augnablikinu -- við ættum að kaupa það!“