Breski auðkýfingurinn sir Philip Green og kona hans hafa tapað einum milljarði punda, jafnvirði 200 milljarða íslenskra króna, á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta jafngildir fjórðungi af virði eignasafns Green. Hann situr nú í 17. sæti yfir auðugustu einstaklinga Bretlandseyja á lista Sunday Times sem birtur var um helgina. Í fyrra vermdi hann 13. sætið.

Þrátt fyrir skellinn ætti ekki að væsa um Green. Eins og kunnugt er á hann fjölda fataverslana í gegnum eignarhaldsfélagið Arcadia með konu sinni, eru metnar á um 3,3 milljarða punda, jafnvirði tæpa 700 milljarða íslenskra króna. Undir hatti Arcadia eru verslanir á borð við Topshop, Topman, Dorothy Perkins og fleiri.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins og fleiri breskra dagblaða um helgina, að tekjur Arcadia hafi dregist saman um 38 prósent á milli ára. Í Telegraph er bent á að slæm afkoma verslunarinnar BHS hafi dregið Green og konu hans niður.

Sir Philip Green hefur talsverð tengsl við Ísland. Hann og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, unnum saman að yfirtöku á Arcadia fyrir áratug síðan. Þegar lögregla gerði húsleit í höfuðstöðvum Baugs árið 2002 keypti Green hlut Baugs í fyrirtækinu. Þá fylgdist Green vel með málum hér eftir hrun og fundaði m.a.  með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og fleirum í október árið 2008.