Íslandsvinurinn Philip Green er undirbúa stækkun viðskiptaveldis síns til Kína og Indlands, að því er segir í frétt Telegraph.

Arcadia á m.a. verslanirnar Topshop, Dorothy Perkins og Miss Selfridge og segir í fréttinni að hann ætli í upphafi að selja föt í Kína í gegnum vefsíðu, en ekki sé útilokað að hann muni opna þar verslun. Sama eigi við um Indland.

Í fyrra tapaði Arcadia 253 milljónum punda á 2,6 milljarða punda veltu, en þegar horft er framhjá einskiptiskostnaði nam hagnaður fyrirtækisins 133 milljónum punda.

Arcadia hefur verið að flytja hluta framleiðslu sinnar aftur til Bretlands frá útlöndum og notar nú um 47 breskar verksmiðjur til að framleiða föt í verslanir sínar. Um 20% af vörum fyrirtækisins koma nú frá Bretlandi.