Hollenski raftækjaframleiðandinn Philips afskrifaði í gær 418 milljónir evra, tæplega 32 milljarða króna, í fyrirtækinu LG Philips Displays, sem það stofnaði með LG Electronics í Suður-Kóreu árið 2001.

Í yfirlýsingu sagði Philips að minnkandi eftirspurn og lækkandi verð á hefðbundnum myndlömpum fyrir sjónvarpstæki væri um að kenna.

Vaxandi vinsældir sjónvarpstækja með flatan skjá hafa valdið því að sala fyrirtækisins hefur hrapað á undanförnum misserum.