*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 23. febrúar 2020 16:03

„Phishing“ brella felldi Man City

Portúgali, sem hrellt hefur evrópsk knattspyrnulið í gegnum tíðina, varð Man City að falli.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Nýverið kvað Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) upp úrskurð þar sem enska knattspyrnuliðinu Manchester City var bönnuð þátttaka í Meistaradeild Evrópu næstu tvö keppnistímabil. Ástæðan er sú að félagið fór á svig við fjárhagsreglur (e. financial fair play (FFP)) sambandsins. Sá sem fletti ofan af misferli félagsins er Portúgali sem undanfarin ár hefur hrellt evrópsk knattspyrnustórveldi.

Afar áhugavert er að hefðbundin og einföld „phishing“-brella varð Man City að falli. Árásarmaðurinn var þrítugur Portúgali, Rui Pinto að nafni. Smitaður Dropbox-hlekkur var sendur á starfsmann en þaðan dreifði óværan úr sér þannig að allir póstar af netþjónum City rötuðu til uppljóstrarans. Samskipti sem hann komst yfir með sambærilegum hætti hjá öðrum liðum og fyrirtækjum hafa hrist upp í knattspyrnuheiminum.

Sjá einnig: Fra uppgangi til keppnisbanns

Í upphafi gerði hann opinbera samninga leikmanna við lið en seinna meir greiðslur frá félögum til foreldra upprennandi leikmanna og upplýsingar um skattskil þeirra. Þá komst hann einnig yfir upplýsingar um fégreiðslu sem Cristiano Ronaldo lét renna til konu sem sakaði hann um nauðgun. Pinto er nú í haldi yfirvalda í heimalandinu en þar verður hann sóttur til saka vegna lekans.

Eftir að þýska blaðið Der Spiegel, í samstarfi við aðra fjölmiðla, fjallaði um lekann og innihald hans hóf sérstök eining innan UEFA rannsókn á málinu. Man City hefur alla tíð neitað sök en það breytti litlu fyrir niðurstöðuna. Tveggja ára bann frá Meistaradeildinni og 25 milljóna punda sekt eru endalok málsins að svo stöddu en næsta víst er talið að City muni leita leiða til að fá úrskurðinum hnekkt.

Óljóst er hvort niðurstaðan mun hafa frekari eftirmála en einhverjir hafa kallað eftir því að liðið verði svipt einhverjum af þeim fjórum Englandsmeistaratitlum sem það hefur landað síðasta áratuginn. Morgunljóst er að fjarvera frá Meistaradeildinni mun þýða umtalsvert tekjutap fyrir liðið sem mæta þarf með niðurskurði annars staðar í rekstrinum til að forðast frekari brot gegn FFP. Talið er að einhverjir leikmenn liðsins hugsi sér til hreyfings og reyni að komast á ný mið verði banninu ekki aflétt. En svo er auðvitað spurning hvort eigendurnir munu finna fleiri frumlegar leiðir til að mæta tapinu.