Sjóðsstýringarfyrirtækið American Century Investments, sem stýrir um 180 milljörðum dölum hefur fengið Pia Michelsson sem framkvæmdastjóra fyrir Norðurlöndin. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá kom Pia til starfa hjá Öldu sjóðum í byrjun árs 2016 þar sem hún vann mikið með íslenskum lífeyrissjóðum og fjárfestum.

Áður hafði hún meðal annars starfað hjá Aberdeen Asset Management og verið aðstoðarforstjóri hjá Kaupþingi í Finnlandi. Jamie Downing framkvæmdastjóri ACI er ánægður með að fá Pia Michelsson til starfa enda hafi hún langa reynslu af störfum með viðskiptavinum í Norður Evrópu.

„Hún mun spila lykilhlutverk í að færa út viðskipti okkar á norðursvæðinu sem er mikilvægur og stækkandi markaður fyrir okkur,“ er haft eftir Jamie Downing í fréttatilkynningu.

Um ACI:

American Century Investments var stofnað árið 1958 og hefur félagið um 1.300 starfsmenn í New York, London, Hong Kong, Mountain View í Kaliforníu og Kansas borg. Meðal viðskiptavina félagsins eru ýmis konar fjárfestingar-, trygginga- og lífeyrissjóðir.

Yfir 40% af arðgreiðslum félagsins fara til Stowers Institute for Medical Research, sem er 500 manna rannsóknarmiðstöð sem rekin er í góðgerðarskyni. Á stofnunin yfir 40% í félaginu og hefur það fengið um 1,4 milljarð Bandaríkjadala í arðgreiðslur frá félaginu frá árinu 2000.