Pia Michelsson hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fjármálafyrirtækinu Alda sjóðir hf. Í tilkynningu segir að vegna bættrar alþjóðlegrar samkeppnishæfni Íslands hafi Alda sjóðir ákveðið að styrkja svæðisbundið og alþjóðlegt vöruframboð félagsins.

Áður en Pia gekk til liðs við Alda var hún staðgengill framkvæmdastjóra viðskiptaþróunnar á Norðurlöndum fyrir Aberdeen Asset Management. Hún hóf störf hjá Aberdeen árið 2010 sem yfirmaður viðskiptaþróunar í Finnlandi og vann þar með fagfjárfestum og viðskiptavinum í heildsölu.

Hún hóf feril sinn á fjárfestingabankasviði Banque Indosuez og var yfirmaður sölumála hjá Amundi Asset Management í Finnlandi til 2001 en gekk þá til liðs við Sofi Financial Service. Árið 2006 varð hún aðstoðarforstjóri Kaupþings í Finnlandi og þar áður framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs þess banka. Pia lauk námi frá Swedish School of Commerce and Marketing árið 1990.