Ferdinand Piëch, sem gengdi umfangsmiklum ábyrgðarstöðum innan Volkswagen samsteypunnar fram til ársins 2015 vill nú losa sig við hlut sinn í félaginu. Hann reynir nú að ná samkomulagi við ættingja sína, sem eru allir af Porsche og Piëch ættum.

Greint er frá málinu á vef New York Times, en hlutur Ferdinands er metinn á ríflega 1,1 milljarð evra. Ef fjölskyldumeðlimir hans ná ekki samkomulagi við hann, gæti fjölskyldan misst talsvert af völdum innan samsteypunnar.

Málið hefur vakið mikla athygli, en óvissa gæti skapast innan félagsins ef atkvæðisréttur fjölskyldunnar skerðist. Aðrir hafa talað fyrir kostum þess, enda gagnrýna margir íhaldssemi fjölskyldumeðlimanna fyrir það að hafa tekið illa á útblásturshneysklinu svokallaða.

Ferdinand Dudenhöffer, prófessor við Háskóla Duisburg, telur þó að ef fjölskyldan nái ekki að kaupa bréfin, muni kínverskir fjárfestar nýta tækifærið.