Ríflega 300 hagfræðingar hvaðanæva að úr heiminum hafa komið saman og skrifað undir undirskriftalista sem ætlað er að hvetja stjórnvöld til þess að herða baráttuna gegn skattaskjólum og gera út af við þau fyrir fullt og allt. Meðal þeirra sem skrifuðu undir listann var hinn þekkti Thomas Piketty, en hann öðlaðist nokkra frægð fyrir ritverk sitt Capital in the 21st Century, sem útleggst á íslensku sem Fjármagn á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Hagfræðingarnir þrjú hundruð hittust á ráðstefnu í Lundúnum sem stendur út vikuna. Þar verða skattaskjól, eðli þeirra og áhrif rædd til hlítar. Listinn sem fyrr var nefndur er yfirlýsing þess efnis að skattaskjól hafi alls engin jákvæð efnahagsleg áhrif og hafi beinlínis slæm áhrif á hagkerfi heimsins. Lausn hagfræðinganna er sú að koma á sameiginlegum alþjóðlegum reglugerðum um upplýsingaveislu fyrirtækja um skattgreiðslur þeirra hvar sem þau eru staðsett.

„Baráttan við skattaskjólin verður alls ekki auðveld," - segja undirritaðir - „vegna þess að valdamikil hagsmunaöfl sjá sinn hag í því að viðhalda óbreyttri stöðu. En það var Adam Smith sem sagði að 'þau efnameiri ættu að greiða af sínum hagnaði til hins opinbera og í hærra hlutfalli við hagnað sinn en aðrir,' og það er engin réttlæting fyrir því að leyfa skattaskjólum, sem snúa þessari yrðingu á hvolf, að halda áfram störfum."

Bréfið sem fylgdi undirskriftalistanum var skrifað og stýrt af Oxfam, alþjóðlegum góðgerðasamtökum sem hafa það yfirlýsta markmið að útrýma fátækt. Að mati samtakanna verður Afríka af skattfé sem nemur um 14 milljörðum Bandaríkjadala eða ríflega 1.700 milljörðum íslenskra króna á ári hverju, sem gæti nýst til þess að fjármagna heilbrigðis- og menntakerfi og bjarga lífum fjögurra milljóna afrískra barna á ári hverju.