Sannkallað píluæði hefur átt sér stað víða um land eftir að Stöð 2 Sport hóf að sýna frá heimsmeistaramótinu í pílu um miðjan desember. „Ég man ekki eftir svona æði,“ segir Sigurður Valur Sverrisson, eigandi verslunarinnar Pingpong.is, en öll píluspjöld seldust upp í versluninni í desember. „Ég held að enginn hafi búist við þessu. Stemmingin á þessu móti hefur alveg breytt sýn fólks á íþróttina. Það sér mörg þúsund manns alveg tryllt að horfa á pílu. Fólk sér að þetta er spennandi og skemmtilegt,“ segir Sigurður. HM í pílu fer fram í Alexandra Palace í London ár hvert, og leggja áhorfendur mikið upp úr búningum, öldrykkju og söngvum á mótinu.

Píluspjöld í bílskúrum um allan bæ

Ólafur Björn Guðmundsson, formaður Íslenska pílukastsambandsins (ÍPS), segir að sambandið hafi ekki upplifað annan eins áhuga á pílukasti og nú. ÍPS var stofnað árið 1985 en píla hafði verið stunduð í áratugi hér á landi áður til þess kom að sögn Ólafs. „Við höfum ekki séð þetta áður. Með sýningum Stöð 2 frá heimsmeistaramótinu vaknaði eitthvert skrímsli. Við bjuggumst ekki við þessu,“ segir hann.

„Við höfum fengið símtöl frá allskyns fólki sem aldrei hefur spilað pílu áður og er nú komið með píluspjald upp í bílskúrinn,“ segir Ólafur. Fjölmargir nýliðar hafi látið sjá sig á mótum Pílukastfélags Reykjavíkur sem haldin voru í kringum jólin og margir efnilegir keppendur hafi látið ljós sitt skína. „Á bombumótinu á milli jóla og nýárs sá ég mann sem hefur verið að spila í bílskúrnum hjá sér en hafði aldrei komið áður í félögin og var alveg svakalega góður,“ segir Ólafur.

Stjórn ÍPS kynnir nú reglugerðabreytingar til að gera nýliðum auðveldara að taka þátt í mótum. Hér eftir verður keppt í Íslandsmótinu bæði í A-riðli fyrir vana píluspilara og B-riðli fyrir byrjendur. „Við erum að opna fyrir nýliða að koma,“ segir Ólafur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Útekkt á stöðunni á hlutabréfamörkuðum.
  • Viðtal við Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar.
  • Umfjöllun um gengi krónunnar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um áramótauppgjör fjölmiðlanna.