Pink Star demanturinn er nú dýrasti demantur heims, en hann var seldur á uppboði í dag á 71,2 milljónir dollara.

Fjallað er um uppboðið í The Telegraph, en uppboðið var haldið hjá Sotheby í Hong Kong.

GIA hafði metið þennan 59,60 karata demant á 60 milljónir dala, sem var örlítið fyrir ofan Oppenheimer demantinn Blue diamond.

Blue diamond fór á 57,7 milljónir dala síðasta maí á uppboði hjá Christie's í Genf í Sviss.

Pink Star er ekki einungis dýrasti demantur sem seldur hefur verið á uppboði, heldur hefur aldrei neitt farið fyrir slíkar upphæðir í Asíu.

Demanturinn var skorinn af 132,5 karata demanti sem fannst í De Beers námunni árið 1999, en það tók tvö ár að slípa steininn og að koma honum í það ástand sem hann er í í dag.

Árið 2013 reyndi skartgripasalinn Isaac Wolf að kaupa Pink Star á 83 milljónir dollara á uppboði í Genf, en hann varð stuttu síðar gjaldþrota og gat því ekki staðið við kaupin.