Samfélagsmiðillinn Pinterest, sem er nokkurs konar stafræn úrklippubók, hefur notið góðs af aukinni heimaveru fólks um heim allan undanfarna mánuði. Samfélagsmiðillinn hefur verið vinsæll vettvangur fólks til að sækja innblástur í ýmiss konar DIY (do it your self) verkefni, skipulagshugmyndir og ýmislegt fleira.

Í uppgjöri Pinterest fyrir þriðja ársfjórðung kemur fram að virkum mánaðarlegum notendum fjölgaði um 37% milli ára og voru 442 milljónir á þriðja ársfjórðungi. Þar af fjölgaði notendum utan Bandaríkjanna um 46% milli ára en bandarískum notendum Pinterest fjölgaði um 13%.

Í bréfi til hluthafa sögðu stjórnendur Pinterest að vöxtur hefði verið sérlega mikill meðal notenda yngri en 25 ára. Þá hefur notkun aukist mikið við útgöngubann og lokanir, en dvínað við tilslakanir. Í bréfinu kom jafnframt fram að notendur sækist eftir hugmyndum fyrir verkefni á borð við að setja upp heimaskrifstofur.

Ungi aldurshópurinn stundar meiri leit á samfélagsmiðlinum en eldri notendur gera almennt. Aukin leit á miðlinum setur aukna pressu á að veita viðeigandi leitarniðurstöður og viðeigandi auglýsingar, en leitarvirknin hefur tilhneigingu til að auka árangur auglýsenda. Í hugum stjórnenda Pinterest felst í þessu gríðarlegt vaxtartækifæri fyrir fyrirtækið, þar sem auglýsendur leiti í auknum mæli vettvanga sem geti stuðlað að sölu.

Gengi Pinterest aldrei verið hærra

Sala Pinterest jókst um 58% milli ára á ársfjórðungnum og nam 443 milljónum dollara, sem samsvarar um 63 milljörðum króna. Tap Pinterest minnkaði á milli ára og nam 94 milljónum dollara, eða um 13 milljörðum króna, en á sama tíma árið áður nam tapið 124 milljónum dollara.

Gengi hlutabréfa Pinterest hækkaði verulega eftir að uppgjörið var kunngjört eftir lokun markaða vestanhafs á þriðjudag. Gengi bréfanna var 64 dollarar þegar markaðir opnuðu vestanhafs í gærmorgun, miðvikudag, sem er um 30% hærra en gengi bréfanna var við lokun markaða á þriðjudag, þá 49,25. Hæst fór gengi bréfanna í 68,93 dollara í gær og hefur gengi bréfanna aldrei verið hærra. Bréf Pinterest hafa rúmlega tvöfaldast frá síðasta uppgjöri.

Ben Silbermann, forstjóri Pinterest, sagði í fréttatilkynningu að eftirspurn sé ríkari nú enn nokkru sinni fyrr meðal fólks, sem sækist eftir ýmiss konar innblæstri.

Todd Morgenfeld, fjármála- og rekstrarstjóri Pinterest, segir árangurinn ekki síst byggja á batnandi eftirspurn stærri vörumerkja eftir auglýsingaplássi, en þess má geta að gengi hlutabréfa vefauglýsingafyrirtækja vestanhafs hækkaði eftir að uppgjör Pinterest var kunngjört.