Auglýsingastofan Pipar\TBWA hefur sagt upp fimm manns og boðið öðrum starfsmönnum að taka á sig 10% tímabundna launalækkun til sex mánaða er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Um fyrirbyggjandi aðgerðir sé að ræða vegna þess samdráttar sem þegar hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og útlit er fyrir að muni eiga sér stað næstu misseri.

„Pipar/TBWA byggir á sveigjanleika í rekstri sem felur í sér að starfsfólki fjölgar í góðæri en fækkar þegar ytri aðstæður eru erfiðari eins og nú. Slíkur sveigjanleiki hefur verið styrkleiki stofunnar um árabil," segir Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri Pipar\TBWA.

„Það er þekkt staðreynd að breytingar í samfélaginu koma fyrst við auglýsingamarkaðinn. Eftir áratuga reynslu af slíkum rekstri erum við farin að þekkja þessi varúðarmerki og höfum lært að bregðast við þeim með þeim sveigjanleika sem einkennir okkur og okkar rekstur.

Við erum þakklát fyrir þann skilning sem starfsfólkið okkar sýnir við þessar aðstæður, en það þekkir flest vel hversu mikilvægt það er fyrir fyrirtæki í þessum geira að laga sig sífellt að nýjum aðstæðum.“