Píratar halda áfram að bæta við sig fylgi, en það mælist nú 35,9% og hækkar um 0,6% milli mánaða. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Samfylkingin er eini flokkurinn fyrir utan Pírata sem bætir við sig fylgi, en fylgi flokksins jókst um 0,5% og er nú 9,5%. Vinstri græn standa í stað og mælast með 10,8%.

Framsóknarflokkurinn mælist með 11% fylgi og lækkar um 1% milli kannana. Fylgi Bjartrar framtíðar lækkar um 0,3% og mælist nú 3,3%. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,7% fylgi en fylgi hans lækkar um 0,7% milli kannana.

Tæplega 6% segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi. Tæplega 10% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og nær 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Samanlagt fylgi stjórnarflokkana mælist nú 34,7% og lækkar um 1,7%. Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um eitt prósentustig milli mánaða en tæplega 37% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja hana.