Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur ákveðið að fela Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata stjórnarmyndunarumboðið í kjölfar þess að flokkur hennar ásamt Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingar hafi sýnt áhuga á að hefja á ný viðræður við Vinstri græna.

Forsetinn segir ekki tímabært að tala um stjórnarkreppu, við séum í svipuðum sporum og fyrr í lýðveldissögunni, og segist hann vita að við fáum ríkisstjórn fyrr en seinna.

Jafnframt tók hann undir að þingið gæti komið saman án þess að hér sé komin ríkisstjórn og það gæti jafnvel hjálpað til við myndun ríkisstjórnar ef flokkarnir þurfa að takast á við fjárlagagerð.