Píratar fengju tæplega 22% fylgi og fjórtán þingmenn kjörna á Alþingi ef gengið væri til kosninga nú, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins . Þannig yrðu þeir næststærsti stjórnmálaflokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokknum, en í síðustu kosningum fengu þeir þrjá menn kjörna.

„Í fyrsta lagi er ekki sjálfgefið að þetta komi upp úr kjörkössum og ekkert sjálfgefið að þetta haldist. Það er mikilvægt að við ofmetnumst ekkert af þessu,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við Fréttablaðið.

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 28%, Samfylkingin 16,1%, Vinstri grænir 10,4%, Framsóknarflokkurinn 10,1% og Björt framtíð 9,2%. Aðeins ein tveggja flokka stjórn yrði möguleg; stjórn Sjálfstæðisflokks og Pírata.

Hringt var í 1.024 manns þar til 800 svör fengust. Alls tóku 60,8% þeirra sem náðist í afstöðu til könnunarinnar.