Meirihlutinn myndi halda ef niðurstaða nýjasta þjóðarpúls Gallup sem tekinn er frá 4. apríl til 3. maí. kæmi upp úr kjörkössum borgarstjórnarkosninganna eftir tæpar þrjár vikur.

Þá fyrst og fremst vegna fylgisaukningar Pírata, sem nú mælast með fjóra borgarfulltrúa, en helstu breytingar á fylgi framboða til borgarstjórnar frá síðustu mælingu Gallup eru þær að fylgi Pírata eykst á sama tíma og fylgi Samfylkingar dregst saman.

Fylgi Pírata eykst um ríflega þrjú prósentustig en rösklega 14% segjast myndu kjósa þá ef
kosið yrði til borgarstjórnar í dag.

Fylgi Samfylkingar minnkar

Að sama skapi minnkar fylgi Samfylkingarinnar um nær fjögur prósentustig og segjast tæplega 28% myndu kjósa flokkinn nú.
Fylgi annarra framboða breytist lítið milli mánaða eða á bilinu 0,2-1,7 prósentustig.

Nær 26% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 9% Vinstri græn, liðlega 8% Viðreisn, næstum 5% Miðflokkinn, rösklega 3% Flokk fólksins, liðlega 2% Sósíalistaflokkinn, nær 2% Framsóknarflokkinn og 1% Höfuðborgarlistann.

Jafnmikill stuðningur við kvenna- og karlaframboð

Rúmlega eitt prósent segist myndi kjósa aðra flokka, þar af 0,5% Kvennaframboðið, 0,5% Karlalistann, 0,2% Borgina
okkar - Reykjavík og 0,1% Alþýðufylkinguna.

Tæplega 11% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og næstum 6% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag.

Meirihlutinn héldi með 13 borgarfulltrúum

Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengju Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sjö fulltrúa hvor, Píratar fjóra, Vinstri græn og Viðreisn tvo hvor og Miðflokkurinn fengi einn borgarfulltrúa.

Núverandi meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna myndi því halda meirihluta, þó Bjartrar framtíðar nyti ekki við.

Skipting fylgis eftir flokkum samkvæmt könnunum Gallup:

  • 27,8% - Samfylkingin, mældist með 31,5% í mars
  • 25,9% - Sjálfstæðisflokkur, mældist með 26,3% í mars
  • 14,4% - Píratar, mældust með 11,0% í mars
  • 8,1% - Viðreisn, mældist með 7,7% í mars
  • 4,8% - Miðflokkurinn, mældist með 6,1% í mars
  • 3,4% - Flokkur fólksins, mældist með 3,2% í mars
  • 2,1% - Sósíalistaflokkurinn, mældist með 0,4% í mars
  • 1,9% - Framsóknarflokkurinn, mældust með 3,1% í mars
  • 0,1% - Höfuðborgarlistinn, mældist með 1,0% í mars
  • 1,3% - Aðrir

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni:

Hér má lesa skoðanadálka, leiðara og pistla í Viðskiptablaðinu um málefni Reykjavíkurborgar: