Píratar gagnrýndu það í vikunni að Ríkisútvarpið fjallaði engan veginn nógu mikið um sig, sérstaklega í ljósi góðs gengis í skoðanakönnunum að undanförnu.

Nú er hæpið að miðlar láti kannanir hafa áhrif á fréttamat eða efnistök, en þær geta þó gefið eftirspurn almennings til kynna, sem sjálfsagt er að hafa í huga.

Fréttir af stjórnmálaflokkum stýrast hins vegar mest af því hversu mikið stjórnmálamenn hafa sig í frammi, en það er í nokkru samræmi við fjölda kjörinna fulltrúa og atkvæðafjöldann þar að baki, en svo hafa ríkisstjórnarflokkar vitaskuld verulegt forskot, svona þegar fréttirnar eru taldar.

Af þeirri tölfræði verður ekki séð að RÚV hafi sniðgengið Pírata sérstaklega eða yfirleitt.