*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Innlent 12. desember 2017 10:15

Píratar íhuga að skipa formann

Þingmenn Pírata ræða að dreifa valdinu og ábyrgðinni sem hvílir á þingflokksformanninum með því að hafa formann í flokknum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Til umræðu er meðal Pírata þessa dagana hvort flokkurinn eigi að gera skipulagsbreytingar og taka upp embætti formanns, en hingað til hafa skyldur formanns hvílt á herðum þingflokksformanns flokksins að því er Fréttablaðið greinir frá.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður segir málið vera í umræðu innan þingflokksins. „Þetta hefur með praktíska þætti upp á þingið að gera, snýst um aukna valddreifingu á þinginu,“ segir Þórhildur Sunna.

„Alla jafna eru báðir starfandi á þinginu. Við erum ekki með formann þannig að þingflokksformaður sinnir flestum þessum skyldum. Það getur haft kosti í för með sér að skipta þessum verkefnum niður.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur þingflokksformaðurinn rétt á 15% álagi á þingfararkaup sitt en formaður flokks 50%. 

Þórhildur Sunna segir ástæðu þess að ekki sé neinn einn ábyrgur fyrir starfsemi flokksins vera arf frá Borgarahreyfingunni þegar hún fékk þingmenn kjörna árið 2009.

„Það hefur verið okkar andúð við vald og valdboð sem hefur haldið þessu í sessi,“ segir Þórhildur Sunna en hugmyndin verður rædd í grasrót flokksins. „Þetta er allt á hugmyndastigi og það er ekki búið að taka neina ákvörðun eða móta neina tillögu. Við vorum bara að spjalla.“