Stjórnmálaaflið Píratar leita nú að framkvæmdastjóra í hálft starf. Auglýsing þessa efnis var birt á vef Pírata fyrr í mánuðinum. Samkvæmt auglýsingunni rennur umsóknarfrestur út 29. nóvember næstkomandi og á framkvæmdasstjórinn að taka til starfa á Nýársdag. Flokkurinn er með þrjá þingmenn. Það eru þau Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir.

Í auglýsingu Pírata eru hæfniskröfur þær að framkvæmdastjórinn þurfi að vera Pírati, lipur í mannlegum samskiptum, sýna frumkvæði, sjálfstæði og skipulagður auk þess að hafa reynslu eða haldgóða þekkingu á rekstri. Á könnu framkvæmdastjórans verður að bera ábyrgð á rekstri og starfsemi stjórnmálaflokks Pírata og standa skil á skyldum Pírata samkvæmt landslögum ásamt öðrum verkefnum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þegar nokkrir sótt um stöðuna.

Þeir sem hug hafa á að verða Pírata-stjórar geta skoðað auglýsinguna á vef Pírata .