Prófkjör Pírata í Suðurkjördæmi er nú lokið og liggja niðurstöður fyrir. Þetta kemur fram á vef flokksins, sem mælist nú með met fylgi. 113 manns kusu í prófkjörinu, 413 voru með kosningarétt og voru 185 skráðir í kosningakerfið. Einn aðili dró framboð sitt til baka.

Smári McCarthy leiðir listann, en Oktavía Hrund Jónsdóttir fékk annað sætið. Þórólfur Júlían Dagsson náði þriðja sætinu og Álfheiður Eymarsdóttir því fjórða. Elsa Kristjánsdóttir hefur tekið fimmta sætið, en alls eru 24 á lista. Þegar niðurstöður úr prófkjörum á höfuðborgarsvæðinu og Norðvesturkjördæmi liggja fyrir, verður haldin staðfestingarkosning á listunum.