Píratar mælast með mesta fylgi frá upphafi, eða meðal 36% þjóðarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins , en þar er vísað til þjóðarpúls Gallup.

Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 21,6%, en fylgið mældist 20,6% í nóvember 2008. Fylgi flokksins hefur dalað um tvö prósentustig frá því í síðasta mánuði.

Vinstri-grænir bæta við sig einu prósentustigi og mælast með 12% fylgi, en Framsóknarflokkur nýtur 11% fylgis. Fylgi Samfylkingar er aftur á móti með lægsta móti í 17 ár og mælist níu prósent.

Fylgi Bjartrar framtíðar skreppur enn saman og mælist nú 4,4%, sem er það lægsta sem hefur mælst á þessu kjörtímabili.

Ríkisstjórnin nýtur 34% fylgis, sem er 2% minna fylgi en fyrir mánuði síðan.

Könnunin var gerð dagana 6. til 30. ágúst. 4290 voru í úrtaki Gallup, svarhlutfallið var 56,9%. Af þeim sem svöruðu nefndu 76,8% einhvern flokk, 11,5% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara og 11,7% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa. Vikmörkin í könnuninni eru 0,9-2,2%, að því er kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins.