Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú eilítið minna en í síðustu könnun MMR, eða 25,4% en í könnun fyrirtækisins frá 24. febrúar síðastliðinn mældist flokkurinn með 26,9% fylgi.

Fylgi Vinstri grænna mælist hins vegar nánast jafnmikið milli kannana og er það nú 23,5% en síðast var það 23,9%.

Píratar auka nokkuð við fylgi sitt milli kannana eða um 2,1 prósentustig en þeir mælast nú með 13,7% fylgi meðan Framsóknarflokkurinn dalar úr 12,2% niður í 11,4%.

Samfylkingin bætir eilítið við sig, og fer flokkurinn úr 8,0% fylgi í 8,8% fylgi, sem er þó fylgisaukning um tíu af hundraði á milli kannanna.

Viðreisn og Björt framtíð með 10,5% samanlagt

Viðreisn dalar milli kannana og er fylgi flokksins komið niður í 5,5% en það var 6,3% í síðustu könnun, en fylgi Bjartrar framtíðar mælist nú við þau mörk sem þarf til að komast inn á Alþingi, eða í 5,0% sem er lækkun um 0,2 prósentustig milli kannana. Samanlagt fylgi flokkanna er því 10,5% samkvæmt könnunni.

Flokkur fólksins, sem ekki komst inn á þing í síðustu þingkosningum, bætir við sig milli kannana og mælist flokkurinn nú í 3,7% fylgi en í síðustu könnun mældist flokkurinn í 2,4% fylgi.

Aðrir flokkar mælast sem hér segir, Dögun mælist í 1,5% fylgi, Íslenska þjóðfylkingin í 0,3% og svo aðrir flokkar í 0,1%.

Samanlagt mælist nú 34,5% stuðningur við ríkisstjórnina, sem er lækkun frá 37,9% í síðustu könnun. Könnunin fór fram dagana 6. til 13. mars síðastliðinn.