Píratar hafa ákveðið að opna kosningabókhald sitt fyrir Alþingiskosningarnar 2016.

Í fréttatilkynningu frá Pírötum kemur fram að kosningabarátta flokksins komi til með að kosta um 16,6 milljónir. Píratar reikna með því að reka kosningabaráttuna með halla, innan við tvær milljónir.

Kosningasjóður Pírata í upphafi vinnu við kosningar 2016 nam 7,2 milljónum og styrkur frá þingflokki Pírata nam 400 þúsund. Flokkurinn safnaði 4,1 milljón í Karolina fund söfnun og fékk 3 milljóna endurgreiðslu frá Ríkisskattstjóra.

Í tilkynningunni frá Pírötum kemur einnig fram að: „Þá má geta þess að þingflokkur Pírata var tilbúinn til að styrkja Pírata um 2 milljónir en samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka er lögaðilum ekki heimilt að styrkja stjórnmálaflokka um miera en 400 þúsund á ári og þáðu Píratar þann styrk.“

16,6 milljóna útgjöld

Útgjöld Pírata vegna kosningabaráttunnar námu 16,6 milljónum en flokkurinn hafði 14,7 milljónir til afnota 24. október samkvæmt kosningabókhaldi flokksins.

Píratar greiddu til að mynda 9,7 milljónir fyrir markaðsmál og auglýsingar og 3,2 milljónir vegna launakostnaðar og sérfræðiaðstoðar.