Þingflokkur Pírata hefur ákveðið að sniðganga hátíðarfund Alþingis sem fram fer á Þingvöllum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

„Ástæðan er óforsvaranleg ákvörðun um að bjóða einum helsta höfundi og talsmanni útlendingaandúðar í Evrópu að ávarpa Alþingi á Þingvöllum á aldarafmæli fullveldis Íslendinga. Engin hefð er fyrir því að erlendir gestir ávarpi þingfundi af þessu tagi og engin nauðsyn var því að bjóða Piu Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfund á Þingvölllum. Hátíðarfundir eiga að efla samstöðu þjóðarinnar, ekki að verða vettvangur fyrir málsvara sundrungar," segir í tilkynningunni.

Jafnframt segir að það sé sjálfsagt og eðlilegt að fagna tímamótum sem þessum en það er varhugavert að gefa þjóðernishyggju á nokkurn hátt undir fótinn við slík tilefni.

Pia Kjærsgaard er forseti danska þingsins og stofnandi flokksins Fremskridtsparti.

Piu var boðið á Alþingi vegna þess embættis sem hún gegnir. Sú staðreynd að stofnandi eins mannfjandsamlegasta flokks Norðurlandanna sitji sem forseti danska þingsins er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni."

Erfið ákvörðun

„Að utanþingsmanni sem hefur unnið jafn ötullega að því að ala á sundrungu, útlendingahatri og Pia Kjærsgaard hefur gert sé boðið heiðursávarp á hátíðarfundi sem sameina ætti okkur Íslendinga, burtséð frá trú okkar og uppruna er hneyksli. Þingflokkur Pírata vill koma því á framfæri að þessi ákvörðun reyndist okkur erfið. Upphaflega stóð til að taka þátt í hátíðarhöldum og segja má að við höfum flotið sofandi að feigðarósi þar sem persóna heiðursgestsins varð okkur ekki ljós fyrr en við fréttaflutning í gær. Okkur þykir þetta leitt en við sáum okkur engan annan kost en að láta samviskuna ráða ferð." segir í tilkynningunni.