Þeir sem styðja Pírata og Bjarta framtíð vakna síður endurnærðir en þeir sem styðja aðra stjórnmálaflokka, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR á heilsuvenjum Íslendinga. Í könnuninni kemur fram að rúmur helmingur landsmanna borðar hollan morgunverð á borð við ávexti og grænmeti svo til dagslega. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 62,7% taka þátt í uppbyggjandi samveru með öðru fólki nokkrum sinnum í viku eða oftar, 62,3% sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar og 52,0% sögðust taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum í viku eða oftar.

Þá kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að hærra hlutfall kvenna en karla sagðist borða ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 90,5% kvenna ávexti og/eða grænmeti nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 73,3% karla.

Stuðningsfólk VG sefur best

Hlutfall þeirra sem sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar var hærra meðal eldri en yngri þátttakenda. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 56,3% vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar, 56,6% á aldrinum 30-49 ára, 70,3% á aldrinum 50-67 ára og 81,2% þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar.

Þeir sem sögðust styðja Pírata og Bjarta framtíð sögðust síður vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku en þeir sem sögðust styðja aðra stjónmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Pírata sögðust 48,9% vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar og 51,7% þeirra sem sögðust styðja Bjarta framtíð. Til samanburðar sögðust 68,2% þeirra sem styðja Vinstri-græn vakna endurnærð nokkrum sinnum í viku eða oftar og 67,6% af þeim sem sögðust styðja Sjálfsstæðisflokkinn.

Um helmingur í íþróttum

Hlutfall þeirra sem sögðust styðja Pírata og taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum í viku eða oftar var nokkuð lægra en hlutfall þeirra sem sögðust styðja aðra stjórnmálaflokka og taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum í viku eða oftar. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Pírata sögðust 36,6% taka þátt í líkamlegum íþróttum nokkrum sinnum í viku eða oftar, borið saman við 56,5% þeirra sem sögðust styðja Bjarta framtíð og 56,0% þeirra sem sögðust styðja Vinstri-græn.

MMR gerði könnunin dagana 30. október til 1. nóvember 2013 og var heildarfjöldi svarenda 963 einstaklingar 18 ára og eldri.