Allir flokkar í Reykjavík nema Píratar og Vinstri-grænir hafa tapað fylgi frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakannanar sem Gallup vann fyrir Viðskiptablaðið.

Landsfylgið smitast í borgina

Píratar fengju 27,5% atkvæða og sjö fulltrúa af 23, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum verður fjölda borgarfulltrúa fjölgað í næstu kosningum úr 15 í 23 til 31. Samkvæmt Helgu Laxdal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, bendi flest til þess að þeir verði 23 talsins en formleg ákvörðun hafi aftur á móti ekki verið tekin.

Þetta yrði öllu betri niðurstaða fyrir Pírata heldur en niðurstaða seinustu sveitarstjórnarkosninga þegar þeir fengu 5,9% atkvæða og einn fulltrúa.

„Píratarnir hafa verið að mælast mjög sterkir í skoðanakönnunum á höfuðborgarsvæðinu en veikari úti á landi. Þeir hafa verið í mikilli uppsveiflu allt árið og voru komnir upp undir 40% á landsvísu í könnunum þegar best lét. Þetta er nú undir því, þessi 27,5%. Ég held að þetta endurspegli þann hljómgrunn sem Píratahreyfingin hefur haft, alveg sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að þetta tengist síður Halldóri Auðari Svanssyni,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .