Spurður hvort hann væri tilbúinn að vinna með Pírötum í næstu ríkisstjórn svarar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins að það væri síðast valkostur sinn.

Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á Bloomberg , en hann segir jafnframt að það muni þurfa þrjá ef ekki fjóra flokka til að mynda næstu ríkisstjórn.

Kaupmátturinn aukist um 8,5% á árinu

Spurður út í ástæðuna svara hann að enn vanti upp á traust til stjórnmálanna og þingsins eftir fjármálahrunið, að þeir séu enn að reyna að endurvinna það traust.

„Það er rétt að efnahagslífið er sérlega sterkt, við höfum lægsta atvinnuleysið í Evrópu, sterkan hagvöxt og kaupmátturinn hefur aukist um 8,5% bara á þessu ári. Við búumst við 5% vexti á næsta ári,“ segir Bjarni.

„Enn þarf þó að byggja brú milli þjóðar og þings.“

Fólk enn ekki ánægt þó laun hafi hækkað mikið

Bjarni segir helstu áhættuna fyrir þjóðina eins og stendur vera ef krónan verður of sterk vegna ferðamannastraumsins, á sama tíma og halda þurfi áfram að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Einnig nefnir hann að vinnumarkaðurinn sé mjög viðkvæmur nú um stundir, en laun hafi hækkað um 13% á síðustu 12 mánuðum en fólk sé enn ekki ánægt.

Of mikið af verkföllum

„Við þurfum að ná jafnvægi milli einka- og opinbera geirans og ná einhvers konar rammasamkomulagi hvernig launahækkanir séu ákveðnar í framtíðinni,“ segir Bjarni og nefnir einnig þörfina að leiðrétta mikið ójafnvægi í lífeyrisréttindum milli opinbera og einkamarkaðarins.

„Það hafa verið of mikið af verkföllum, og of margir kjarasamningar sem hafa gefið launahækkanir langt umfram framleiðniaukninguna.“