*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 26. mars 2015 15:32

Píratar vilja breyta lögum um símhleranir

Þingflokkur Pírata hefur áhyggjur af því að dómstólar samþykki nær undantekningalaust beiðnir lögreglu um heimild til símhlerana.

Jóhannes Stefánsson
Axel Jón Fjeldsted

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp til laga sem miðar að því að lögregla geti ekki vísað til almanna- eða einkahagsmuna þegar hún óskar eftir símhlerunum fyrir dómstólum. Íslenskir dómstólar hafa frá árinu 2009 nær undantekningalaust fallist á beiðnir lögreglu um símhleranir, eða í 99,31% tilvika í 715 úrskurðum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að „rök fyrir heimild til hlustunar eru í fæstum tilvikum byggð á því að brot varði átta ára fangelsi eða meira heldur vísa þau til ríkra almannahagsmuna eins og núgildandi lög heimila. Almannahagsmunir hafa hins vegar verið túlkaðir mjög vítt sem leiðir til nær undantekningalausra úrskurða lögreglunni í vil. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gagnrýnt sambærilega venju í Moldovíu í Iordachi o.fl. gegn Moldavíu nr. 25198/02, frá 10. febrúar 2009, og lýst því yfir að hún standist ekki ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs.“

Viðbúið er að heimildir lögreglu til símhlerana þrengist talsvert verði frumvarpið að lögum, sem kæmu þá til með að breyta lögum um meðferð sakamála.

Stikkorð: Símhleranir Píratar Sakamál