Píratar hafa samþykkt tillögu sem felur í sér að flokkurinn hafni aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar.

Ekki er tekið fram hvort það eigi að gera með því að fá utanþingsráðherra, eða krefjast þess að ráðherrar víkji úr sæti á þingi á meðan þeir gegna embættinu.

„Vel má hugsa sér að í einni ríkisstjórn megi finna hvort tveggja. Með tillögunni er lagt til að gert skuli að algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á. Gildir þar einu hvort Píratar væru leiðandi í stjórnarsamstarfi eða ekki. Þó er vert að hafa í huga að orðalagið útilokar ekki að Píratar verji minnihlutastjórn annarra flokka, sem skipuð er þingmönnum, falli,“ segir í tillögunni.

Þar segir jafnframt að hlutverk ríkisstjórnar sé að framfylgja vilja þingsins, og að hlutverk þingsins sé að fylgjast með því að ríkisstjórnin fari eftir settum reglum. „Þegar engin aðgreining er á forystu ríkisstjórnar og þingsins verður nær ómögulegt að gera raunverulegan greinarmun á því hvort það er þingið eða stofnanir framkvæmdavaldsins sem ráða för.“