„Stefnt er að því að miðstöð innanlandsflugsins flytjist úr Vatnsmýrinni,“ segir í nýsamþykktri stefnu Pírata í Reykjavík um miðstöð innanlandsflugsins. „Áður en til þess kemur þarf annar flugvöllur á suðvesturhorni landsins að hafa tekið við miðstöð innanlandsflugsins.“ Einngi segja Píratar að raunhæft sé að byggja hraðlest til Keflavíkur án mikilla útgjalda skattgreiðenda.

Æskilegt segja Píratar að sá flugvöllur yrði ekki alltof langt frá Keflavík því þyrfti að vera varaflugvöllur fyrir millilandaflugið. Þangað til yrði þó að tryggja að Reykjavíkurflugvöllur gæti sinnt sínu hlutverki með sóma segir í fréttatilkynningu Pírata.

Umræður og kosningar um ný stefnumál Pírata fara ekki fram á landsfundum, líkt og hjá flestum flokkum, heldur eru nýjar stefnur samþykktar árið um kring á vef Pírata, x.piratar.is.

Lest myndi nýtast miðstöð innanlandsflugsins

Þá vilja Píratar í Reykjavík að hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur verði skoðuð af alvöru. „Lestin myndi nýtast miðstöð innanlandsflugsins og tengja sveitarfélögin á SV-horninu saman búsetu- og atvinnulega. Hún myndi draga úr bílaumferð, vera umhverfisvæn og auka umferðaröryggi.“

Í greinargerð með samþykktum flokksins í borginni segir að ástæða þess að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara úr Vatnsmýrinni sé að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að nýta Vatnsmýri sem byggingarland og það byggingarland er betur staðsett með tilliti til vistvænna samgöngumáta en annað land innan borgarmarkanna.

Segja öryggisógn af vellinum og að samþætta þurfi nýjan völl sjúkraflutningum

Þá segja þeir öryggisógn stafa af flugvellinum í Vatnsmýri. Jafnframt að gott sé að samþætta innanlandsflug millilandaflugi í Keflavík sem væri hægt að gera með tilkomu lestar. Síðan segja þeir að móta þurfi framtíðarsetefnu í sjúkraflutningum fyrir landið, en það kunni að hafa áhrif á áform um framtíðarstaðsetningu flugvallar.

Loks segir í greinargerðinni að raunhæfir möguleikar virðist vera á að hraðlest REY-KEF komi í einkaframkvæmd án umtalsverðra útgjalda fyrir skattgreiðendur. Með hraðlestinni styttist ferðatími milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins í 20 mínútur og ferðakostnaður stórnotenda lækkar verulega. Mengun minnkar, öryggi eykst og ýmiss óbeinn ávinningur fylgir svo sem samþætting vinnumarkaðar á SV horninu.

Nýr varaflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir alþjóðaflugið. Næstu varaflugvellir eru á Egilsstöðum, Akureyri og í Skotlandi og flugvélarnar þurfa aukið eldsneyti, sem minnkar aðra burðargetu og þar með tekjur flugfélaganna. Því er æskilegt að hafa varaflugvöll fyrir alþjóðaflugið ekki alltof langt frá Keflavík.

Kanna þarf hvort bygging nýs flugvallar í Hvassahrauni sé heppilegasti kosturinn fyrir miðstöð innanlandsflugvöll og fyrir alþjóðaflugið.